30 apríl 2007

Bráðum kemur....

Prófatími gerir mann algjörlega úldinn í hausnum. Venjulega verð ég gjörsamlega utanvið mig og eftir því sem prófið nálgast og læknisfræðin sigtast inn fer allt annað beint út.

Bréf frá Hreini Páls um svindl í prófum vakti upp slíka minningu.

Man ekki hvaða ár það var, kannski í fyrra eða hittifyrra (er ég virkilega að klára 12.misserið??!)
Vorum í prófi í Eirbergi að sjálfsögðu sem er með leiðinlegri prófstöðum. Man ekkert hvaða próf ég var að taka en eins og venjulega tók ég með mér glósurnar mínar (sem voru óvenju góðar þetta prófið) til að lesa fyrir framan stofuna fyrir próf. Sem ég að sjálfsögðu geri aldrei.
Svo var kallað inn og allir fóru í sæti. Ég sat við gluggann og setti dótið mitt í gluggakstuna.

Eftir prófið rölti ég upp að púlti til að skila og aldrei þessu vant tók ég bara allt draslið með mér.
Rétti fram prófið.
"Hvað ertu með þarna í vinstri hendinni?"
"já...hmm...bara glósurnar mínar?"
"Þú veist að þetta er ekki gagnapróf og þar af leiðandi bannað að vera með glósur inni í prófi..."
"oóóóóóó......"
"Ég ætti í raun að kæra svindlið til kennarana og ógilda prófið"
"oóóóóó....."

Úldin í hausnum.
That´s the kind of thing I´m talking about....
Ef ég ætlaði að svindla mundi ég að sjálfsögðu gera það á einhvern aðeins lúmskari hátt en með stóran bunka af glósum við hliðina á mér í prófinu til að fletta í....

24 apríl 2007

I can see that it´s a lie..

Undarlegir tímar.
17 dagar í próf og 7 milljón efni eftir.
Myndir af Geir með eplakinnar í öllum strætóskýlum. Hann ætti ekki að vera með eplakinnar.
Samkynhneigðin bankar upp á og gefur Kalla dauða rós (mér finnst það frekar ósmekklegt...).
Mannætustórt skilti af alþingiskonum í galaklæðnaði við búningsklefann í World Class - þó núna sé reyndar búið að bíta nokkrar í burtu.
Mogginn ókeypis.
Klikkaðir nágrannar, lögregla og brjálaðir ættingjar.
Keyri óvart upp í Hafnarfjörð af því veit ekki hvað á að kaupa í matinn.
Keyri óvart yfirum af því að veit ekki hvað ég er eiginlega að lesa.

Margt að ugga.
Margt í skugga.
Andardrátt á glugga....

18 apríl 2007

Heraginn

Ein ég sit og læri...inni í litlu húsi....
Ég er komin með algjört ógeð. Finnst samt ég þurfi að læra og fæ mig ekki til að fara í partý, sem ég hefði þó gott af...
Tók inn á mig gagnrýni áðan - Það er ekki hægt að komast endalaust áfram á hörkunni...harðduglegur er ekki endilega hrós. Maður verður ekki góður í neinu nema maður taki með gleði, tilhlökkun og fínleika - og ekki endalausa pressu.
Buhuuu...
Þar fór það. Ég fer á hörkunni, en nenni því ekki lengur. Mig langar ekki að keppast...keppast við að læra og vinna og blaður.
Ég vil bara fá að njóta lífsins.
Nú er nóg komið. Til fjandans með þessar síðustu þrjár vikur.
Þegar ég verð loksins búin með þessa herdvöl verða allir vinir mínir farnir burt.

17 apríl 2007

Aumur er agalaus maður

Ætlaði að vakna klukkan sjö í morgun því ég hef svo ótrúlegan viljastyrk til að lesa fyrir próf....
...eða það fannst mér í gærkvöldi.
Í morgun eftir að hafa snúsað tvisvar ákvað ég að fresta því til 8...og þá var mig að dreyma svo (spennandi?) draum um flótta frá stríði að ég ákvað að ég ætti innilega skilið að sofa út, enda verið undir svo mikilli pressu undanfarið aumingja ég...
Vaknaði klukkan 10, ákvað að opna páskaeggið mitt (nr 2 af 3...) og fékk þá þennan málshátt.

In my face

Vakna pottþétt klukkan 7 á morgun....

Ps. Þessi póstur er skrifaður undir gífurlegri pressu frá pedda sem neitar að læra nema ég bloggi.
Farðu nú að læra! Aumur er agalaus maður!!!

13 apríl 2007

Where troubles melt like lemondrops

Þá fer útálandsdvölin að styttast í annan endann, bara helgin eftir og Kalli á leiðinni.
Hér á ég 2 litlar frænkur sem límast á mig. Komu í gær á heilsugæsluna og varla að ég fengi að sjá sjúklinga fyrir þeim. Fékk eftir vinnu svo að leika sjúkling, meðan þær kíktu ítrekað í eyru, háls, augu, tóku blóðþrýstinginn 10 sinnum og lömdu reflexa til og frá. Leist reyndar ekkert á þegar þær sögðust bara sjá svört hár í eyrunum á mér....
Þær eru loksins að fatta að stelpur geta líka verið læknar - í haust þá trúðu þær mér ekki (en þú ert stelpa.....)
Held samt að hátindi ferilsins hafi verið náð þegar þær biðu eftir mér í biðstofunni og sungu: Margrét Margrét fullum hálsi.
Dáldið gott pepp up fyrir sjúklinga sem voru á leiðinni til mín og höfðu mun meiri trú á mér eftir upphitun í biðstofunni.

Ágætis upplyfting eftir lágtindinn þegar ég hitti á gamla lækninn héðan. Kynnt sem nýji læknirinn sem leysti hina af. Svarið var:
Hún? (og ég rannsökuð upp og niður...) Er þetta þá orðið svona? Tja, heimur versnandi fer....

Stundum - bara stundum - á ég pínulítið erfitt með að höndla karlrembu.....

12 apríl 2007

Sögur úr sveitinni

Alltaf gaman í sveitinni.
Helstu fréttir héðan eru af gæs sem telur sig vera barn en ekki gæs.
Hún neitar að leika með öðrum gæsum en eltir börnin og reynir að bíta þau.
Eftir nokkurra daga einelti var hringt á lögguna sem handsamaði gæsina eftir mikinn æslagang.
Þeim datt samt ekki í hug að aflífa greyið heldur halda henni hjá sér í von um að ranghugmyndirnar gangi yfir.
En gæsin neitar enn að vera gæs og vill bara vera barn.
Er að hugsa um að bjóða þeim antipsychotica og leysa málið....

Önnur gæs hefur ákveðið að ofsækja bílastæðið mitt - hangir þar með þóttasvip dag eftir dag og harðneitar að hreyfa sig þó ég hóti að keyra yfir hana.

Hver þarf Reykjavík?

09 apríl 2007

Blue monster of my conciousness

Aftur á Blönduósi.
Held ég sé einn mesti auli í heimi. Skíthrædd að keyra á leiðinni hingað í snjó og vitleysu (jafnvel ef til vill svo mikill auli að ókunnug kona kom til mín eftir heiðina bara til að tékka hvort væri ekki allt í lagi með mig...). Ætli slysó hafi gert mig svona paranoid?
Í dag er líka bara snjór og frost og ég svaf lítið í nótt.
Vona að ég fái soldið að læra í dag...

03 apríl 2007

Ein í heimi hér

Bý ein, í fyrsta sinn á ævinni...og mér líst ekkert á það. Finnst eins og ég sé bara að bíða eftir einhverju og er með stöðugan kjánahroll.
Tómur haus samfara tómri íbúð.
Svaf næstum ekkert í nótt.
Það er kalt og Blanda berst fyrir utan gluggann.
Enginn til að taka á móti mér eftir erfiðan dag í vinnunni.
Hvernig fara aðrir að þessu?

Sem betur fer kemur Kalli á morgun...